Hallormsstaðaskóli

Skólinn

Að hefja nám

Hallormsstaðaskóli

Um skólann

Í rúm 90 ár hefur verið starfrækt fræðslu- og menningarsetur á Hallormsstað. Kennsla við skólann hefur ávallt einkennst af sjálfbærnihugsjónum, hagnýt handverksþekking verið ofin saman við siðferði náttúrunytja, vísindi, staðbundin hráefni og næmni fyrir samtíma, samfélagi, menningu, sögu.
 
Hallormsstaðaskóli býður upp á einstakt námsumhverfi þar sem hinn óáþreifanlegi menningararfur, skapandi sjálfbærniþekking og hefðbundið handverk fyrri kynslóða er skoðuð í nýju ljósi og tengd saman við nýja tækni, vísindalega þekkingu og hugmyndafræðilegar áherslur samtímans. 

Stefna og gildi

Í Hallormsstaðaskóla leggjum við áherslu á:

Samtal við fortíðina

Miðlun þekkingar milli kynslóða er mikilvæg. Í hefðbundnu handverki, framleiðsluháttum og alþýðumenningu fyrri á tíma er fólgin dýrmæt þekking.

Í Hallormsstaðaskóla einbeitum við okkur að því að endurhugsa framtíðina og daglegt líf í samtímanum á skapandi hátt með fortíðina að leiðarljósi. Við leitum þess nýja í því gamla og tökumst á við áskoranir samtímans með lærdóm fyrri kynslóða í farteskinu. 

Þekkingu handarinnar

Okkur er umhugað um að tengja saman fræði og framkvæmd. Hlutverk skólans er að skapa tækifæri, möguleika og aðstöðu til að rannsaka, þróa og rækta þekkingu, sköpunargáfu og verklega færni, 

Í gegnum ferli sköpunar og handverks eflist hráefnis- og vistkerfisvitund. Við viljum efla þekkingu og skilning á efnivið, lífríki, samfélagi og menningu til að átta okkur á eigin ábyrgð og því hvernig við getum tekið ábyrgð.

Skapandi sjálfbærni

Hugtakið sjálfbærni er umdeilt og stöðugt í mótun. Í Hallormsstaðaskóla tökum við mið af árstíðum, veðri og vindum, en einnig málefnum sem birtast okkur í daglegu lífi. Áskoranir framtíðarinnar krefjast nýrrar hugsunar, virkrar hlustunar, skapandi lausna og greinandi nálgunar. 

Við einbeitum við okkur að því að efla þekkingu og vistkerfisvitund auk þess sem við þjálfum gagnrýna hugsun og miðlun þekkingar og köfum í djúp leik- og sköpunargleði okkar.

 

Valdeflandi menntun

Við leggjum áherslu á menntun sem styður við sjálfbærni á öllum sviðum. Markmið skólans er að útskrifa lausnarmiðaða nemendur með traustan þekkingargrunn, hæfni til að miðla þekkingu, verkkunnáttu og færni, og þor, kraft og hugrekki til að prófa nýjar leiðir.

Við leggjum áherslu á að efla trú nemenda á eigin getu og möguleikum til að koma af stað umbreytingum. Námið er í stöðugri mótun, nemendur taka virkan þátt í mótun þess og eru hvattir til frumkvæðis og tilraunastarfsemi. 

Endurnæringu og vellíðan

Við leggjum ríka áherslu vellíðan sem grundvöllur umbreytinga til sjálfbærni. Við þurfum að efla meðvitund um ábyrgð okkar og afleiðingar lífstíls og neysluhegðunar. Við þurfum að efla skilning og tengsl við vistkerfi og lífríki jarðar, Við þurfum líka að læra að taka ábyrgð og leita leiða til að skapa okkur gott og nærandi líf sem ekki gengur nærri öðru fólki og lífríki jarðarinnar.

Við þurfum að finna leiðir til að hlúa að jörðinni og gefa til baka. Við þurfum langtímaplan en til að geta framkvæmt það þurfum við andrými og næringu í núinu. 

Samvinnu

Skapandi lausnir og óvæntar hugmyndir verða til í samtali og samvinnu ólíkra aðila, þvert á fræði og fög. Saman erum við sterkari. Þetta er í okkar huga grundvöllur ábyrgrar nýsköpunar sem tekst á við áskorarnir samtímans. 

Við vinnum nánu sambandi við nærsamfélagið og leggjum áherslu á námsumhverfi þar sem samvinna og virk hlustun er höfð að leiðarljósi. Samstarf við stofnanir, sérfræðinga og reynda fagaðila er dýrmætt og við leggjum áherslu á að vera vettvangur þverfaglegs samstarfs sem hefur skapandi sjálfbærni og samfélagslega ábyrga nýsköpun að leiðarljósi.  

Logo_hvitt_200x200_x1.png
Hallormsstaðaskóli 
Sími 471 1761 
kt. 640169-0959
Hallormsstað
701 Múlaþing
© 2024, Hallormsstaðaskóli

Skráðu þig á póstlista Hallormsstaðaskóla

Fylgstu með hvað er á döfinni hjá Hallormsstaðaskóla með því að skrá þig á póstlistann okkar.  

IS  /  EN